Öryggismál
Hvaða reglur gilda um akstur vélsleða?
• Þótt almenna reglan segi að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega þá er heimilt samkvæmt lögum að aka á snævi þakinni og frosinni jörð, svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Sama gildir um jökla. Einstaka svæði í þjóðgörðum eru þó lokuð allri vélknúinni umferð. Þetta er mikilvægt að virða þannig að ekki komi til takmarkana á notkun vélsleða.
• Almennt er bannað að aka vélsleða í þéttbýli og á almennum vegum þótt umferðarlög geri einnig ráð fyrir undantekningum frá því. Í sumum bæjarfélögum hafa einnig verið mótaðar sérstakar reglur sem heimila vélsleðaakstur eftir tilteknum leiðum eða stystu leið að heiman og út fyrir bæjarmörk.
• Hafa ber í huga að vélsleðar eru hávær tæki og valda öðru fólki auðveldlega truflun. Því ber sleðamönnum ávallt að sýna öðrum vegfarendum og útivistarunnendum tillitssemi í hvívetna. Sérstaklega ber að hafa í huga að halda sig frá svæðum hestamanna og skipulögðum skíðasvæðum.
• Réttindi til aksturs vélsleða fylgja bílprófinu, þ.e. ekki er nóg að hafa réttindi til að aka skellinöðru. Undantekning frá þessu er ef um er að ræða akstur á lokuðu og tryggðu svæði en þar mega 14 ára og eldri aka sleðum.
• Vélsleðar þurfa undir öllum kringumstæðum að vera bæði skráðir og tryggðir. Skyldutryggingar eru annars vegar ábyrgðartrygging og hins vegar slysatrygging ökumanns og eiganda. Til samans bæta þessar tryggingar bæði tjón sem notkun sleðans veldur öðrum (bæði eigna- og líkamstjón) og einnig greiða þær bætur til ökumanna og farþega þess sleða sem veldur tjóninu, verði þeir
fyrir meiðslum. Að aka óskráðum sleða er því leikur að eldi.
Hvaða hættur steðja að sleðamönnum?
• Vélsleðinn veitir mikið frelsi. Stöðugt er hægt að finna nýjar og ótroðnar slóðir og á örskotsstund má leggja að baki vegalengd sem tæki fleiri klukkutíma með öðrum farartækjum. En í þessu frelsi vélsleðamennskunnar eru einnig faldar helstu hætturnar. Ferðaleiðin og það sem er framundan er þannig að verulegu leyti ófyrirsjáanlegt og gerir þær kröfur til vélsleðamannsins að hann haldi ætíð vöku sinni.
• Algengustu og hættulegustu slysin verða þegar ekið er fram af einhvers konar hengju eða brún. Mikil hætta er á alvarlegum meiðslum í slíkum slysum, t.d. rifbeinsbrotum, innvortis meiðslum og bakmeiðslum. Einnig bera menn ósjálfrátt fyrir sig hendurnar eða þá halda enn um stýrið þegar höggið kemur á sleðann sem leiðir af sér úlnliðs og handarbrot.
• Brattar brekkur hafa reynst mörgum sleðamanninum skeinuhættar. Þótt færið sé gott neðst í brekkunni er algengt að glæra svell sé þegar ofar dregur þannig að sleðinn missir allt grip. Með sífellt öflugri sleðum hefur hætta á slíkum slysum aukist.
• Bröttum brekkum fylgir snjóflóðahætta. Snjóflóð eru og munu alltaf verða ógn við þá sem ferðast um fjalllendi.
• Leikaraskapur eða ógætilegur akstur getur valdið slysum. Flestir vélsleðar eru í eðli sínu leiktæki, smíðaðir til að fara hratt og komast upp brattar brekkur. Við góðar aðstæður er því eðlilegt að menn vilji spretta aðeins úr spori en auknum hraða fylgir aukin hætta.
• Vatn og krapi eru meðal óvina sleðamanna og hafa gert mörgum þeirra skráveifu.
• Íslenskt veðurfar er ólíkindatól og mikill munur er á veðurfari í byggð og til fjalla. Vanmat á veðri getur reynst vélsleðafólki dýrkeypt, ekki síst þeim sem ætla bara „rétt að skreppa á sleða”.
Hverjar eru ástæður vélsleðaslysa?
• Í flestum vélsleðaslysum er um að ræða vanmat á aðstæðum með einum eða öðrum hætti, rangar ákvarðanir eða aðgæsluleysi, eins og raunar í slysum almennt.
• Þekkingar- eða reynsluleysi getur verið um að kenna í sumum tilfellum en þó hefur sýnt sig að oftast hafa þeir sem lenda í slysum talsverða reynslu af sleðamennsku.
• Vélsleðaslys geta orðið í slæmu veðri en ekki síður þegar veðrið er gott og sólin skín. Þegar sólin skín og allt leikur í lyndi er einmitt mest hættan á að fólk slaki á árvekninni.
• Ölvun við akstur er grafalvarlegt mál sem átt hefur sinn þátt í slysasögu vélsleðamanna. Áfengi og akstur fara að sjálfsögðu aldrei saman.
Hvað er hægt að gera?
• Til að minnka líkur á slysum og svo hægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þurfa bæði sleði og ökumaður að vera í topp standi.
• Tíðarfar hérlendis er með þeim hætti að glæra hjarn og svell myndast mjög auðveldlega og fyrirvaralítið. Vel negldur sleði er margfalt öruggara tæki en ónegldur og tryggja þarf að meiðar undir skíðum séu í lagi.
• Góð veifa á stöng aftan á sleðanum nýtist sérlega vel ef ferðast þarf í slæmu veðri.
• Sjá þarf til þess að sleðinn sé í góðu standi og nauðsynlegir varahlutir með í för. Auka gangur af kertum og varareim er lágmarksbúnaður ásamt tilheyrandi verkfærum.
• Ekki síst þarf ástand ökumannsins að vera í lagi. Hann þarf að vera líkamlega í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem upp kunna að koma.
• Skyndihjálparkunnátta þarf að vera fyrir hendi en er því miður nokkuð sem margir trassa.
• Enginn ætti að leggja einn upp í ferð, jafnvel þótt ekki sé farið langt frá byggð.
• Allir sem fara á vélsleða þurfa að fylgjast með veðurspá. Það er sjálfsagður hlutur.
• Reglur um hvað telst gott eða of slæmt veður til ferðalaga eru einfaldlega ekki til. Þá ákvörðun getur enginn tekið fyrir aðra. Nauðsynlegt er að gæta ýtrustu varúðar og reynslan er besti kennarinn í þessum efnum.
Hlífðar- og öryggisbúnaður
• Notkun á viðeigandi hlífðar- og öryggisbúnaði er þáttur sem klárlega þarf að vera í lagi til að draga úr afleiðingum slysa og koma í veg fyrir þau. Viðeigandi öryggisbúnaður er jafn nauðsynlegur og sleðinn sjálfur.
• Vélsleðakeppni má nefna sem dæmi. Þar gilda mjög strangar reglur um öryggisbúnað enda slys tiltölulega fátíð.
• Hjálmurinn hefur verið staðalbúnaður allra sleðamanna í áratugi og LÍV ásamt fleirum hafa unnið að því að gera notkun á brynjum að jafn sjálfsögðum hlut. Brynjan verndar bæði brjóstkassa og bak, t.d. ef ekið er fram af hengju eða ofan í gil.
• Fatnaður þarf að vera í lagi. Best er að vera í ull næst sér og í vatnsheldum galla. Leðurgallar hafa verið vinsælir og reynst vel en einnig má fá mjög góða galla úr gerfiefnum. Hafa ber í huga að allir geta lent í að þurfa einhvern tímann að grafa sig í fönn.
• Sjúkrakassi, svefnpoki, einangrunardýna og vatnsheldur utanyfirpoki (varpoki) eða lítið tjald sem liggja má í utan dyra ættu allir að hafa, a.m.k. í lengri ferðum. Búnaður sem þessi getur skilið á milli lífs og dauða, því ef slys verður þá kólna menn hratt. Munum líka að slysin verða ekki síður í stuttu ferðunum.
• GPS-tæki og góð fjarskiptatæki (NMT sími, gerfihnattasími og VHF talstöðvar) auka öryggið. En það er ekki bara nóg að eiga þessi tæki, menn þurfa líka að kunna á þau. Þá þekkingu geta menn t.d. sótt til LÍV og björgunarsveitanna.
• GPS punktar af Netinu geta verið ágætir en hins vegar ættu menn að varast að nota punkta sem þessa í blindni því í þeim geta reynst villur. Tækin geta einnig bilað og þá skiptir öllu að kunna grundvallaratriðin í rötun, þ.e. notkun áttavita og korts.
• Snjóflóðaleitartæki eða ýla, ásamt skóflu og snjóflóðaleitarstöng, eiga allir að hafa, bæði í lengri og styttri ferðum. Einnig er mikilvægt að æfa notkunina.
Ferðareglur
• Þeir sem ferðast saman eiga að sjálfsögðu að halda hópinn en þó ekki aka svo þétt að ef eitthvað hendir fyrsta mann þá nái sá næsti ekki að stoppa. Þetta á bæði við um akstur í góðu veðri og slæmu.
• Við akstur í slæmu veðri hefur reynst best að menn raði sér upp í tvöfalda röð og aki það þétt saman að menn sjái næsta mann fyrir framan og þann sem ekur við hliðina. Mikilvægt er að stilla hraðanum í hóf. Ljóst
þarf að vera hver hefur forystu og velur leiðina en allir þurfa að vera tilbúnir að grípa inn í ef menn telja að verið sé að aka af réttri leið.
• Aldrei skal ofmeta eigin getu eða tækjanna. Nauðsynlegt er að kunna 100% á leiðsögutækin og nota GPS-punkta sem ökumenn hafa sjálfir sannreynt. Betra er að bíða veður af sér í skála eða grafa snjóhús en berjast áfram við vonlausar aðstæður.
• Nauðsynlegt er að fylgjast með kennileitum og læra á landið. Nota á GPS-tækin sem hjálpartæki í þessu sambandi en ekki aka meðvitundarlaus um fjöll og firnindi án þess að vita nokkurn tímann hvar maður er staddur.
• Mikilvægt er, bæði í lengri og styttri ferðum, að stoppa oft og ræða saman um skipulag ferðar. Þannig læra menn hver á annan og forðast misskilning.
• Allir vita að vélsleðamennskan er hættulegt sport sem krefst þess að iðkendur sýni alltaf ýtrustu varkárni og noti þann öryggisbúnað sem völ er á til að lágmarka áhættuna. Jafnframt þarf fólk að gera sér grein fyrir að allur heimsins öryggisbúnaður mun ekki koma í veg fyrir öll slys.
• Stærsti áhrifavaldurinn liggur hjá sleðamanninum sjálfum. Hann þarf stöðugt að hafa hugfast hversu víða hætturnar leynast og hegða sér samkvæmt því. Þá mega menn heldur ekki víkja sér undan að ræða það sem úrskeiðis fer þegar slys verða og draga af því lærdóm. En slysin verða.
Útgefandi: Landssamband Íslenskra Vélsleðamanna og Slysavarnafélag Íslands.