Lög Landssambands Íslenskra Vélsleðamanna
Eftir breytingar sem samþykktar voru á landsfundi 18.okt. 2008
I. kafli
Nafn sambandsins og tilgangur
1. gr.
Sambandið heitir Landssamband íslenskra vélsleðamanna, skammstafað LÍV. Heimili þess og varnarþing er hjá forseta hverju sinni.
2. gr.
Landssambandið er samband vélsleðaáhugamanna. Aðild að sambandinu geta eftirtaldir átt:
Félög vélsleðamanna
Einstaklingar, sem óska eftir beinni aðild að sambandinu, þar sem ekki eru starfandi félög á þeirra svæði.
Önnur félög (t.d. björgunarsveitir, ferðafélög o.fl.) geta átt aukaaðild að sambandinu.
3. gr.
Tilgangur sambandsins er:
Vinna að öryggis- og hagsmunamálum vélsleðamanna
Koma fram gagnvart stjórnvöldum í öllum málum er varða vélsleðamenn á landsvísu.
Stuðla að góðri umgengni vélsleðamanna og vernd náttúru landsins, m.a. með samstarfi við umhverfis- og náttúruverndaraðila.
Gefa út málgagn (Vélsleðinn).
Halda úti heimasíðu um málefni félagsins og aðildarfélaga.
Vinna að stofnun og styðja starf vélsleðafélaga á landinu.
II. kafli
Réttindi og skyldur félaga og félagsmanna
4. gr.
Aðeins eitt félag vélsleðamanna skal vera á hverju svæði.
Umsóknir um aðild svæðafélaga að sambandinu skulu sendar stjórn sambandsins til afgreiðslu. Með umsókn skulu fylgja drög að lögum svæðafélagsins. Aðild svæðafélags öðlast gildi eftir afgreiðslu stjórnar, en leggja skal umsóknir fyrir landsfund til staðfestingar. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum.
5. gr.
Félagsgjald skal ákveðið á landsfundi ár hvert. Jafnframt skal ákveða skiptingu gjaldsins milli landssambandsins og vélsleðafélaganna. Landssambandið sér um innheimtu árgjaldsins og skulu félagsmenn greiða það í upphafi hvers starfsárs.
6. gr.
Greiði félagsmaður ekki árgjald í tvö ár samfellt, fellur hann út af félagaskrá sambandsins og félaganna.
Félagsmenn sem ekki greiða árgjald skulu ekki njóta þeirra afsláttarkjara sem félagsmönnum stendur til boða hverju sinni.
III. kafli
Stjórn og fundir
7. gr.
Stjórn sambandsins skal skipuð tveimur fulltrúum og einum til vara sem tilnefndir eru af svæðafélagi sem telur 50 félagsmenn eða fleiri. Ef félagsmenn svæðafélags eru færri en 50 fær það svæðafélag einn fulltrúa í stjórn og einn til vara. Í stjórn sambandsins skulu ætíð sitja formenn svæðafélaga. Til viðbótar við skipaða stjórnarfulltrúa skal á landsfundi kjósa forseta félagsins til tveggja ára. Að þeim tíma liðnum er heimilt að kjósa sitjandi forseta til eins árs í senn. Að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum.
Stjórn sambandsins er heimilt að skipa 7. mann í stjórn félagsins til að sinna sérstökum verkefnum t.d. gjaldkeramálum.
Stjórn er heimilt að skipa sérstakar nefndir til þess að sjá um framkvæmd sérstakra verkefna um lengri eða skemmri tíma.
Kjósa skal tvo skoðunarmenn og einn til vara til tveggja ára í senn.
8. gr.
Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum sambandsins. Reikningsár sambandsins er frá 1. september til 31. ágúst. Landsfundur skal haldinn í októbermánuði ár hvert. Fund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til formanna svæðafélaganna. Fundarboð skal greina frá fundarefni og tillögum sem bera á undir atkvæði.
Dagskrá landsfundar skal vera sem hér segir:
Skýrsla stjórnar um starfsemi liðins árs
Skýrslur svæðafélaga
Endurskoðaðir reikningar lagðir fram og skýrðir
Fjárhags- og framkvæmdaáætlun næsta starfsárs
Ákvörðun um félagsgjald og skiptingu þess
Ákvörðun um félagsgjald þeirra félaga sem hafa aukaðild að sambandinu
Lagabreytingar
Ný stjórn kynnt
Kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara
Ákvörðun um næsta landsfund
Önnur mál
9.gr.
Fulltrúar á landsfundi ákvarðast samkvæmt eftirfarandi reglu:
Hvert vélsleðafélag fær þrjá fulltrúa óháð félagafjölda. Auk þess einn fulltrúa fyrir hverja 25 félagsmenn.
2. Fulltrúar þeirra félagsmanna, sem eiga beina aðild að sambandinu, skulu valdir af stjórn sambandsins þannig, að einn fulltrúi verði fyrir hverja 25 félaga. Leitast skal við að fulltrúar dreifist vel landfræðilega.
Fjöldi fulltrúa miðast við skuldlausa félagsmenn í lok reikningsárs (31. ágúst).
Allir félagsmenn eiga rétt til setu á landsfundi án atkvæðisréttar, en með málfrelsi og tillögurétt.
Til félagsfundar getur stjórnin boðað, þegar henni þykir ástæða til.
Á landsfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum sambandsins.
IV. kafli
Lagabreytingar, sambandsslit o.fl.
10. gr.
Breytingar á lögum þessum má eingöngu gera á landsfundi. Tillögur að lagabreytingum skulu hafa borist stjórn sambandsins fyrir 15. september. Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.
11. gr.
Eigi má slíta eða leggja sambandið niður nema það verði samþykkt með 2/3 hluta greiddra atkvæða á tveimur lögmætum fundum (landsfundum) með minnst mánaðar millibili og hafi fundarefnis verið getið í fundarboðum. Verði sambandinu slitið skal eigum þess ráðstafað til sambandsfélaga eða hliðstæðs félags eða stofnunar, samkvæmt nánari ákvörðun landsfundar.